Árið 2008 viðurkenndu Valitor, Borgun og Greiðsluveitan að félögin hafi haft með sér langvarandi og víðtækt ólögmætt samráð sem beindist gegn Kortaþjónustunni. Þetta er stærsta viðurkennda samkeppnislagabrot Íslandssögunnar. Árið 2013 fékk Valitor hálfan milljarð í sekt fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu, m.a. með brotum gegn Kortaþjónustunni. Fleiri rannsóknir á brotum gegn Kortaþjónustunni eru í vinnslu. Fólk hefur rétt á að vita sannleikann og hér er saga þessara mála sögð.

Smelltu á plúsana á tímalínunni hér fyrir neðan til að lesa meira um hvern og einn málaflokk.

Valitor sektað um 500 milljónir fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu

Í apríl 2013 var Valitor sektað um 500 milljónir króna fyrir að misnota markaðsráðandi stöðu sína m.a. í samkeppni við Kortaþjónustuna á árunum 2007-2009. Málsgagna var m.a. aflað með húsleit hjá Valitor 1. júlí 2009. Í úrskurðinum kemur fram að Valitor braut ítrekað gegn sáttinni sem félagið gerði við Samkeppniseftirlitið árið 2008 í kjölfar stóra Kortasamráðsmálsins. Valitor safnaði m.a. gögnum um viðskiptavini Kortaþjónustunnar með ólögmætum hætti, reyndi að fá slík gögn afhent frá Reiknistofu bankanna þrátt fyrir að það væri óheimilt með öllu og seldi ákveðna þjónustu undir kostnaðarverði til að koma í veg fyrir að viðskiptavinir færu til keppinautanna.

Víðtækt, alvarlegt og langvarandi ólögmætt samráð Valitor, Borgunar og Greiðsluveitunnar

Valitor og Borgun höfðu með sér margvíslegt ólögmætt samráð á kortamarkaðnum frá innkomu Kortaþjónustunnar árið 2002. Félögin nýttu m.a. Greiðsluveituna, sem var að hluta til í eigu félaganna, til að gera Kortaþjónustunni sem erfiðast að hefja starfsemi á Íslandi. Að auki höfðu félögin með sér samráð áður en Kortaþjónustan kom til skjalanna sem miðaðist að því að draga úr samkeppni milli félaganna. Gögn sem Samkeppnis-
eftirlitið aflaði með húsleitum hjá Valitor og Borgun sumarið 2006 sýna þetta.

Nánari upplýsingar hér

Ólögmæt sértæk undirboð eingöngu til viðskiptavina Kortaþjónustunnar

Um leið og Kortaþjónustan kom á markaðinn 2002 hófust undirboð til þeirra fyrirtækja sem voru í viðskiptum hjá Kortaþjónustunni. Í gögnum Samkeppniseftirlitsins sést m.a. hvernig Valitor notfærði sér gögn bankanna til að halda skipulega utan um upplýsingar um viðskiptavini Kortaþjónustunnar og vann ötult að því að hafa samband við þá til að gera þeim betri tilboð en annars buðust. Valitor gaf sölumönnum sérstaka heimild til að fara neðar en almennt var boðið þegar um viðskiptavini Kortaþjónustunnar var að ræða. Þetta stóð a.m.k. fram að húsleit 2006. Enn þann dag í dag er í gangi rannsókn hjá Samkeppniseftirlitinu sem varðar misnotkun Valitors á markaðsráðandi stöðu sinni.

Nánari upplýsingar hér

Aðgengi Kortaþjónustunnar að Greiðsluveitunni og innlendum greiðslukerfum hindrað

Þegar Kortaþjónustan hóf starfsemi árið 2002 óskaði félagið eftir aðgangi að kerfum Greiðsluveitunnar (sem þá hét Fjölgreiðslumiðlun). Gögn Samkeppniseftirlitsins sýna hvernig framkvæmdastjóri fyrirtækisins lét forráðamenn Valitors og Borgunar strax vita af fyrirætlunum Kortaþjónustunnar, skipulagði fundi þeirra og vinnu við að hindra aðgengi að kerfum Greiðsluveitunnar.

Nánari upplýsingar hér

Valitor reiknar gengismun á færslur og varar korthafa og söluaðila við að skipta við Kortaþjónustuna

Fyrstu mánuðina sem Kortaþjónustan starfaði nýtti Valitor sér það, að greiðsluuppgjör félagsins fór fram í erlendum greiðslukerfum, til að klekkja á Kortaþjónustunni. Með því að breyta upphæð í íslenskum krónum sem kaupandi var rukkaður um og seljandi fékk afgreidda í takt við gengisbreytingar á þeim dögum sem liðu frá viðskiptum og fram að afgreiðslu varð upphafleg upphæð og gjaldfærð upphæð ekki sú sama. Þetta kallaði Valitor „Gengisáhættu“ og auglýsti sem slíka, auk þess að auglýsa að þetta gerðist vegna þess að viðkomandi söluaðili skipti við Kortaþjónustuna og að Valitor gæti ekkert við þessu gert. Þetta gekk í nokkra mánuði þar til Visa í Evrópu ítrekaði við Valitor að þetta væri óeðlilegt, auk þess sem Samkeppniseftirlitið tók málið til skoðunar. Þá loks hætti Valitor þessu verklagi.

Nánari upplýsingar hér

Borgun segir upp samningum við söluaðila sem hyggjast skipta við Kortaþjónustuna

Kortaþjónustan gerði tækniþjónustusamning við Borgun, sem var til þess að viðskiptavinir Kortaþjónustunnar gætu áfram sent Maestro færslur í uppgjör til Borgunar. Þegar svo Kortaþjónustan gerði samning við nýja viðskiptavini sendi Borgun bréf til viðkomandi söluaðila með yfirskriftinni „Uppsögn samninga um móttöku korta“ og gerði tilraunir til að fá söluaðilann til að hætta við að ganga í viðskipti við Kortaþjónustuna. Þjónustugjöld á Maestro færslum voru jafnframt hækkuð upp í hæstu möguleg gjöld skv. gjaldskrá, auk þess sem gjaldskráin var síðar hækkuð sérstaklega fyrir þessa söluaðila.

Nánari upplýsingar hér

Valitor fær Visa Europe til að gera tilraun til að stöðva starfsemi Kortaþjónustunnar

Gögn Samkeppniseftirlitsins sýna að Valitor beitti VISA Europe þrýstingi í því skyni að hindra starfsemi PBS/Kortaþjónustunnar hér á landi. Þetta var m.a. gert með því að semja sérstakar VISA landsreglur (e. local rules) sem tóku til allra sem starfa við færsluhirðingu hér á landi með VISA greiðslukort. Í þessum landsreglum voru m.a. samkeppnishamlandi ákvæði sem voru til þess fallin að hindra starfsemi PBS/Kortaþjónustunnar hér á landi. Á þessum grunni tókst m.a. að stöðva starfsemi Kortaþjónustunnar um nokkurra daga skeið í mars 2003, eftir að Valitor tilkynnti Visa Europe að Valitor myndi hafna öllum færslum sem kæmu í gegnum Kortaþjónustuna. Því var þó hnekkt, enda stóðu engin málefnaleg rök til slíkra krafna.

Nánari upplýsingar hér

Borgun fær Mastercard til að gera tilraun til að stöðva starfsemi Kortaþjónustunnar

Árið 2002, nokkrum dögum eftir að Kortaþjónustan hóf starfsemi, náði Ragnar Önundarson, þáverandi framkvæmdastjóri Borgunar, að senda inn umsögn til Alþingis á síðustu stundu varðandi nýju lögin um fjármálafyrirtæki sem voru í meðferð þingsins. Þar leggur hann til að færsluhirðar eigi að falla undir lögin, þ.e. að þeir þurfi að hafa bankaleyfi. Það eru miklu strangari reglur en gilda almennt í Evrópu, enda felst ólíkt meiri áhætta því að stunda innlánsstarfsemi heldur en færsluhirðingu. Tillagan var tekin inn í lögin. Strax í kjölfarið kærði Borgun starfsemi PBS á Íslandi til Fjármálaeftirlitsins, og rúmu ári síðar var Borgun í samstarfi við MasterCard komin langt með að nýta þetta ákvæði til að stöðva starfsemi Kortaþjónustunnar. Það var byggt á því að reglur MasterCard segja m.a. að þjónustuaðilar þess verði að fara að landslögum og þarna var PBS, samstarfsaðili Kortaþjónustunnar, augljóslega að brjóta þau. Þegar tókst að sýna stjórnvöldum hversu óeðlilegt það var, m.a. með því að benda á að PBS væri þegar starfandi í a.m.k. 14 öðrum Evrópulöndum, gaf viðskiptaráðherra út reglugerð sem tryggði að Kortaþjónustan og PBS gætu starfað áfram.

Nánari upplýsingar síðar

Valitor og Borgun meðhöndla allar færslur í gegnum Kortaþjónustuna sem erlendar færslur

Valitor og Borgun nýttu sér það að greiðsluuppgjör Kortaþjónustunnar fór fram í erlendum uppgjörskerfum til að klekkja á keppinautnum. Með því að skilgreina færslur hjá viðskiptavinum Kortaþjónustunnar sem „erlendar“, skráðust greiðslukortafærslur hjá kaupmönnum sem skiptu við Kortaþjónustuna á erlenda heimild korthafa, sem er ekki jafn há og innlend. Auk þess lentu slíkar færslur í auknum áhættustýringum, m.a. þannig að korthafar þurftu að hringja handvirkt eftir heimild ef færsluupphæðir fóru yfir 100.000 kr. á venjuleg kort og 200.000 kr. á gullkort. Þannig lentu viðskiptavinir Kortaþjónustunnar í ýmsum óþarfa óþægindum. Gögn Samkeppniseftirlitsins sýna að keppinautar Kortaþjónustunnar ræddu ítrekað að nota ætti tækifærið til að benda kaupmönnum á að þeir myndu losna við óþægindin bara með því að fara frá Kortaþjónustunni. M.a. sendu yfirmenn þessi skilaboð í þjónustuverin, til að tryggja að öllum kvörtunum yrði svarað á þennan hátt. Visa Europe benti Valitor á það í desember 2002 að einfalt væri fyrir Valitor að laga þetta með því að breyta skilgreiningum sínum. Samt ákvað Valitor að halda þessu verklagi til streitu allt fram til ársins 2009.

Nánari upplýsingar síðar

Húsleit hjá Valitor, Borgun og Greiðsluveitunni. Endar með 735 milljón króna sektargreiðslum

Fyrri hluta árs 2006 varð forsvarsmönnum Samkeppniseftirlitsins ljóst að samkeppnisbrestur væri að verða á markaðnum fyrir færsluuppgjör. Eftir að kallað var eftir ítarlegum upplýsingum frá Kortaþjónustunni og söluaðilum um nokkurt skeið var gerð húsleit hjá Valitor að morgni 13. júní 2006 og hjá Kreditkortum síðdegis sama dag. Þessum húsleitum var fylgt eftir með húsleit hjá Greiðsluveitunni 14. mars 2007. Eftir að ljóst varð við rannsókn Samkeppniseftirlitsins á málinu að félögin höfðu átt með sér alvarlegt, víðtækt og langvarandi samráð gegn Kortaþjónustunni gerðu þau sátt við Samkeppniseftirlitið um greiðslu alls 735 milljóna króna sektar og varð þetta þar með stærsta viðurkennda samkeppnislagabrot Íslandssögunnar.

Nánari upplýsingar síðar

Kortaþjónustan höfðar einkamál á hendur Valitor, Borgun og Greiðsluveitunni

Árið 2010 fékk Kortaþjónustan loks aðgang að gögnunum sem aflað var með húsleitunum og leiddu til þess að Valitor, Borgun og Greiðsluveitan viðurkenndu samkeppnislagabrot og gerðu sátt við Samkeppniseftirlitið árið 2008. Gögnin sýndu að brotin voru alvarlegri og víðtækari en forsvarsmenn Kortaþjónustunnar höfðu ímyndað sér. Það tók Kortaþjónustuna um tvö og hálft ár að fá gögnin afhent, enda börðust félögin þrjú mjög hart gegn því, m.a. með hótunum um að sáttin yrði afturkölluð. Kortaþjónustan hefur nú höfðað einkamál á hendur félögunum þar sem fyrirtækið telur sig hafa rétt á skaðabótum vegna háttsemi félaganna.

Nánari upplýsingar síðar

FME kanni hvort stjórnendur banka og kortafyrirtækja séu vanhæfir

Kortaþjónustan hefur sent Fjármálaeftirlitinu erindi þar sem farið er fram á að FME kanni hæfi nafngreindra stjórnenda fjármálafyrirtækjanna Borgunar, Valitors, Arion banka, Landsbankans og Íslandsbanka. Telur Kortaþjónustan að stjórnendurnir uppfylli ekki hæfisskilyrði laga um fjármálafyrirtæki þar sem þeir stýrðu fyrirtækjunum þegar þar voru ástunduð samkeppnislagabrot gagnvart Kortaþjónustunni, og stýra þeim enn. Stjórnendurnir hafa viðurkennt lögbrotin, sem […]

Lesa meira

Sérfræðingar í samkeppnislagabrotum

Grein um samkeppnismál á Íslandi eftir Jóhannes Inga Kolbeinsson, framkvæmdastjóra Kortaþjónustunnar. Birt í Morgunblaðinu 19. ágúst 2015. Eitt verkefna Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans auk dótturfélaga þeirra, Valitors og Borgunar síðustu mánuðina hefur verið að leita leiða til að velta 1.620 milljóna króna sekt vegna ólöglegs samráðs yfir á viðskiptavini sína. Með öðrum orðum finna […]

Lesa meira

Samkeppniseftirlitið fyrirskipar breytingar á greiðslukortamarkaði

Eins og kunnugt er gerðu Samkeppniseftirlitið og Arion banki, Íslandsbanki, Landsbankinn, Valitor og Borgun sátt í desember 2014 þar sem fyrirtækin viðurkenndu að tiltekin framkvæmd á greiðslukortamarkaði hefði ekki verið í samræmi við 10. og 12. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins. Fyrirtækin féllust á að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir sem eru til þess fallnar […]

Lesa meira